17) Colchani - Bólivía

17) Colchani - Bólivía

Bólivía var eitt furðulegasta land sem við heimsóttum. Fólkið þar virtist ekki þola ferðamenn, jafnvel það sem hafði lífsviðurværi sitt af þeim. Samskipti voru bæði erfið og stíf, það var litið á mann sem vandamál og þjónustan í samræmi við það. Við skoðuðum gríðarlega falleg landsvæði, saltsléttur og eyðimerkur í 5000 metra hæð, skelltum okkur í náttúrulega heita laug og röltum um þorp þar sem ég mætti lamadýri á vappi á miðri gangstéttinni. Það var hinsvegar vonlaust með öllu að mynda fólkið, sem trúði því að það myndi tapa sálinni ef tekin væri mynd af því. Það þýddi lítið að reyna að ræða þessi mál og mér fannst réttast að virða þetta og safna ekki sálum þeirra. Ég fann þó einn gaur, sem var jafn forvitinn og ég. Kóngur í eigin kastala, bílstjóri á eigin trukk, óhræddur við allt. Hann hafði engar áhyggjur af því að ég væri kominn til þess að stela sálu hans. Það væri auðvelt að fylla heila bók af landslagsmyndum frá Bólivíu, en sökum þess hvað portrettmyndirnar reyndust erfiðar, urðu þær mér enn dýrmætari.