19) Waiotapu – Nýja-Sjáland

19) Waiotapu – Nýja-Sjáland

Lady Knox geysirinn í Waiotapu, Nýja-Sjálandi, lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Lítið kísilhrúgald sem varað er við að fara of nálægt. En það er eitthvað við það að sjá hann gjósa, einhverjir töfrar sem losna úr læðingi. Vissulega ekki sá stærsti í heimi, en fagur er hann og skemmtilegur. Það var kunnugleg tilfinning að vera staddur úti í náttúrunni og bíða eftir því að hver myndi gjósa, því fylgdi einhver barnsleg eftirvænting. Náttúran er það sem mér finnst einna mest töfrandi við Nýja-Sjáland. Að keyra um landið í litlum húsbíl og skoða jafnt merkilega sem ómerkilega staði, horfa á landið þjóta framhjá og fá sér nesti í notalegu rjóðri, er ferðamáti sem ég mæli með við hvern þann sem ætlar að upplifa landið. Stjörnubjartar nætur langt frá stórborgunum, fagurhvítar strendur og þjóðgarðar um allt. Jöklar og háhitasvæði eru síðan andstæður sem passa ótrúlega vel saman, eins og við þekkjum vel.