20) Siem Reap - Kambódía

20) Siem Reap - Kambódía

Í Kambódíu er allt falt fyrir einn dollara, fátæktin er gríðarleg í landi sem hefur upp á allt að bjóða. Það kom mér svolítið furðulega fyrir sjónir, þar sem landrými er gríðarlegt og gróðursæld með eindæmum, að það skyldu vera nokkur þorp fljótandi á Tonle Sap, stærsta stöðuvatni landsins. Þar er samfélag manna, verslanir, skólar og meira að segja íþróttahús, allt saman á fljótandi flekum. Allt er þetta byggt upp af fólki sem eingöngu er að reyna að komast af, að reyna að lifa. Hugmynd um fljótandi þorp er í fyrstu rómantísk og notaleg, en raunveruleikinn var ískaldur og nístandi. Fólkið gat vissulega veitt fisk en það þurfti talsvert að hafa fyrir því að fá hreint vatn og lifði á ölmusum ferðamanna til þess að hafa efni á einum hrísgrjónasekk, sem væntanlega eins og allt annað kostaði einn dollara. Þessi litli gaur hafði kannski lítið val, en hann átti einhverra hluta vegna lifandi slöngu, en engar nærbuxur. Ég veit ekki hvað hann var að bjóða mér, slönguna til kaups eða kannski bara að klappa henni. Augu hans sögðu mér að honum var kannski alveg sama, bara á meðan hann kæmist af.