21) Nairobi – Kenýa

21) Nairobi – Kenýa

Mér fannst erfitt að taka upp myndavélina í Nairobi. Ég heyrði borgina þagna, stoppa og horfa á mig þegar ég gerði það. Á rölti okkar um hana í heilan dag varð ég varla var við hvíta manneskju nokkurs staðar, en þegar ég dró upp myndavélina skar ég mig ekki lengur bara úr hópnum útlitslega heldur líka fjárhagslega. Ég fékk kort á gistiheimilinu sem sýndi hvaða götur mætti ganga í miðbænum og hverjar alls ekki. Ég sá kort í fátækraþorpinu sem börn höfðu málað og sýndi hvar fólk væri rænt með skotvopnum og hvar með sveðjum. Ég sá heimasíður sem sögðu mér að þetta væri ein af hættulegustu borgum heims. Fordómar og upplýst hræðsla eru tveir mjög ólíkir hlutir sem mér fannst erfitt að rugla ekki saman. Upplifunin var ógleymanleg, erfið og yndisleg. Allt iðaði af fólki, milljónir manna hrærðust um eins og maurar, hélt ég. Þegar ég tók eftir því að fólk sem reyndi að svindla á mér í gær nálgaðist mig aftur í dag og mundi eftir mér, áttaði ég mig á að það var regla í þessum glundroða, en ég var fyrir utan hana.