23) Brisbane - Ástralía

23) Brisbane - Ástralía

Þegar veðrið leikur við fólk alla daga ársins er skemmtilegur fylgifiskur að fjöldi götulistamanna margfaldast. Á ferðum okkar hittum við marga slíka, misskemmtilega og misáhugaverða. Þessi gamli maður á göngugötu í miðri Brisbane var tvímælalaust einn af þeim áhugaverðari. Tæknivæddasti götulistamaður sem ég hef séð, með fulla ferðatösku af snúrum, dóti, drasli og heimasmíðum hljóðfærum. Þegar ég smellti af honum nokkrum myndum sá hann við mér, því hann var einnig vopnaður myndatökugræju. Fyrir mér var hann einhverskonar hlekkur milli gömlu og nýju kynslóðarinnar, ung sál í gömlum líkama og eflaust tæknivæddasti „afi“ sem ég hef hitt. Nú er hann kominn upp á vegg á Íslandi og ég velti fyrir mér hvort hugsanlega sé myndbrot af mér í ástralskri heimildarmynd sem hann sýnir nú í einhverjum sal hinumegin á hnettinum.