24) Siem Reap - Kambódía

24) Siem Reap - Kambódía

Á flakki okkar sáum við ýmsar aðferðir til þess að sníkja eitthvað frá ferðamönnum. Sumir voru, eða þóttust vera, líkamlega ófærir um að vinna, aðrir sýndu einhverjar listir og enn aðrir lágu bara með bauk við hlið sér og mögulega hundinn sinn. Erfiðast fannst mér alltaf að horfa upp á fólk með ungabörn sitja með útrétta hönd. Það er svo ósanngjarnt gagnvart barninu, sem er orðið að söluvöru. Á sama tíma er gríðarlega erfitt að vera reiður vegna þessa, því oft eru hreinlega engin önnur úrræði og erfitt er að setja sig í þau spor. Lífið snýst um að þrauka daginn en ekki að safna sér fyrir utanlandsferð eða sjónvarpi í gestaherbergið. Það snýst um að nýta hvert einasta ráð, einn dag í einu.